30 September 2009 12:00
Lögreglan á Suðurnesjum hefur nú til rannsóknar þrjú innbrot í Garði. Innbrot sem hafa verið framin síðastliðna viku. Um er að ræða innbrot í Gerðaskóla síðastliðna nótt og einnig tvö innbrot í Flösina við Garðskagavita. Við rannsókn málanna hefur lögregla farið í sex húsleitir og rætt við fjölda vitna. Málin eru óupplýst. Í einu málanna er til upptaka þar sem sést til þriggja pilta en þeirra er nú leitað. Í því sama máli fannst blóð á vettvangi sem bendir til þess að viðkomandi hafi skorið sig talsvert við að fara inn í húsið.
Lögreglan biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um þessi mál að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 420-1800.