13 Nóvember 2014 12:00

Innbrot á heimili í Kópavogi voru ívið færri á fyrstu tíu mánuðum ársins í samanburði við sama tímabil áranna 2012 og 2013. Þjófnuðum fækkar líka á árinu 2014 í samanburði við síðasta ár, en eru engu að síður yfir meðaltali í samanburði við önnur svæði í umdæminu. Á því kunna reyndar að vera ýmsar skýringar og má m.a. benda á Smáralind, en þar er talsvert um hnupl og hefur það auðvitað áhrif á tölfræðina. Þessar upplýsingar, og margar fleiri, voru kynntar á svæðafundi lögreglunnar með fulltrúum Kópavogsbúa í gær.

Fundurinn var hinn gagnlegasti, en fundargestir voru almennt ánægðir með lögregluna og samstarfið við hana. Þetta nefndu bæði skólastjórnendur og einn prestanna í bænum, en það er ekki þar með sagt að ekki mega gera betur. Það á m.a. við í umferðarmálum, en í nokkrum tilvikum hefur brotahlutfall ökumanna verið mjög hátt þegar lögreglan hefur verið við hraðamælingar í Kópavogi. Tölfræði frá fundinum má annars nálgast með því að smella hér.