28 Nóvember 2014 12:00

Árlegri fundaherferð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu lauk í gær, en þá hittu fulltrúar lögreglunnar Mosfellinga að máli. Fundurinn var hinn gagnlegasti, en á honum var farið ítarlega yfir stöðu mála og þróun brota í Mosfellsbæ. Eins og jafnan áður er ástandið í sveitarfélaginu almennt gott, en tilkynntum þjófnuðum og innbrotum á fyrstu tíu mánuði ársins fækkaði í samanburði við sama tímabil á síðasta ári. Ef einvörðungu er horft til innbrota á heimili er sömuleiðis um fækkun að ræða á milli ára.

Á fundinum voru enn fremur kynntar niðurstöður úr könnun, Þolendakönnun – viðhorf til lögreglu, sem lögreglan lét framkvæma í sumarbyrjun. Þar kemur fram að íbúar í Mosfellsbæ telja lögreglu skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum, en 87% Mosfellinga töldu svo vera. Engu að síður telja allmargir að lögreglan sé óaðgengileg og nefna þá sérstaklega að engin lögreglustöð er í byggðarlaginu. Þetta, og margt fleira áhugavert, má kynna sér með því að skoða tölfræðina frá fundinum, en hana má nálgast með því að smella hér.