31 Janúar 2014 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið í  notkun samfélagsmiðilinn Pinterest til að deila upplýsingum um óskilamuni. Þar verða birtar myndir af öllum óskilamunum sem lögreglunni berast, t.d. reiðhjólum, gsm-símum og skartgripum svo eitthvað sé nefnt, en talsverður fjöldi óskilamuna berst lögreglunni á hverju ári.

Tilgangurinn með þessari nýjung er að fjölga þeim óskilamunum sem rata aftur í réttar hendur. Jafnframt geta borgarar nú með einföldum hætti kannað hvort týndir munir í þeirra eigu séu í vörslu lögreglu. Gott er að ganga úr skugga um slíkt oftar en einu sinni því nokkur tími getur liðið frá því að hlutur glatast og þar til hann berst lögreglu.

Pinterestsíðuna er að finna á www.pinterest.com/logreglan, en á henni er að finna myndir af óskilamunum sem hafa borist lögreglu frá 1. janúar 2014.