17 Maí 2014 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið í notkun sex, sérútbúin lögreglureiðhjól. Lögreglustöð 5 fær hjólin til afnota, en varðsvæði hennar er miðborgin, vesturbær Reykjavíkur og Seltjarnarnes. Það var Arion banki sem færði embættinu hjólin að gjöf og reiðhjólafatnað að auki.
Viðbúið er að lögreglureiðhjólin verða mikið notuð í miðborginni í sumar og raunar næsta vetur líka ef aðstæður leyfa. Reiðhjólalöggæsla er ekki alveg ný af nálinni hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en hún hefur ekki áður verið með jafn öflugum hætti og nú er stefnt að. Með reiðhjólalöggæslu fæst eilítið önnur nálgun, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bindur miklar vonir við verkefnið.
Nýju lögreglureiðhjólin eru sérútbúin, eins og áður kom fram, en það var Örninn sem flutti hjólin inn. Myndin hér að neðan var tekin þegar fulltrúar Arion banka, Sveinn Gíslason svæðisstjóri og Lilja Dögg Ásgeirsdóttir fjármálaráðgjafi, afhentu lögreglureiðhjólin á Austurvelli sl. fimmtudag. Stefán Eiríksson lögreglustjóri tók við þessari góðu gjöf, en hann er einnig á myndinni ásamt nokkrum lögreglumönnum.