20 Desember 2020 21:28

Ofanflóðasérfræðingar Veðurstofu Íslands ásamt samstarfsaðilum, hafa metið hættu á frekari skriðuföllum á Seyðisfirði. Enn er hætta á skriðuföllum á ákveðnum svæðum og verða þau áfram rýmd. Þeir íbúar sem búa utan þeirra svæða er heimilt að snúa aftur.

Alls þurftu 581 íbúi að yfirgefa Seyðisfjörð vegna aðgerðanna. Nú hafa 305 íbúar farið aftur inn á þau svæði sem eru ekki skilgreind sem hættusvæði.

Þeir íbúar sem ekki geta snúið til síns heima geta fengið upplýsingar í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Egilsstaðaskóla á Egilsstöðum.

Fljótlega verður opnuð þjónustumiðstöð almannavarna fyrir íbúa á Seyðisfirði. Samkvæmt lögum um almannavarnir er ríkislögreglustjóra heimilt, þegar hættu ber að garði eða hún um garð gengin, að stofna tímabundið þjónustumiðstöð vegna tiltekinnar hættu eða hættuástands.

Verkefni þjónustumiðstöðvar felast meðal annars í upplýsingagjöf til almennings og þjónustu við þá aðila sem hafa orðið fyrir tjóni og hin tiltekna hætta hefur haft önnur bein áhrif á. Auk þess annast þjónustumiðstöðin, í samvinnu við hlutaðeigandi yfirvöld og stofnanir, samskipti við fjölmiðla vegna aðgerða sem gripið er til hverju sinni.

Næsti samráðsfundur almannavarna, viðbragðsaðila, veðurstofu og stofnanna verður kl 10 í fyrramálið.