16 Maí 2012 12:00

Klukkan 13:22 í dag barst lögreglunni á Akureyri tilkynning um að snjóflóð hefði fallið í suðurhlíðum Kerlingar á Glerárdal ofan Akureyrar og hefðu tveir vélsleðamenn lent í flóðinu og væru afdrif þeirra óljós.  Voru þá þegar ræstar út björgunarsveitir Landsbjargar á svæðinu og undirbúningur aðgerða hafin.

Örfáum mínútum síðar barst aftur símtal frá mönnum þessum og þá jafnframt staðfesting að báðir þessir menn hefðu komist af sjálfdáðum úr flóðinu og væru óslasaðir og var þá öll aðstoð afturkölluð. 

Þarna höfðu nokkrir vélsleðamenn verið á ferðinni og á leið uppá fjallið Kerlingu og lentu tveir þeir öftustu  í flekaflóði sem fór af stað í kjölfar þeirra sem á undan voru.  Annar mannanna grófst í flóðinu en náði að komast upp úr því af sjálfdáðum.  Sá aðili var með bakpoka með útblásanlegum loftpúðum sem ætlað er að koma mönnum til aðstoðar í aðstæðum sem þessum og náði maðurinn að virkja loftpúðana og má telja líklegt að það hafi hjálpað til að halda manninum efst í flóðinu.  Félagar mannsins sáu því allan tímann hvar hann var staddur í flóðinu.   

Lögreglan vill árétta við ferðafólk sem hyggur á fjallaferðir næstu daga að skoða vel snjóalög og haga ferðum sínum eftir því með tilliti til snjóflóðahættu sem er talsverð núna í kjölfar talsverðrar ofankomu síðustu daga ofan á harðfenni sem nú er undir.