Frá vettvangi við Reykjanesbraut.
18 Október 2016 16:11

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 9. – 15. október.

Sunnudaginn 9. október kl. 18.25 féll standandi farþegi í strætisvagni við fót er vagninum var ekið í hringtorg Fjarðargötu við Lækjargötu. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 12. október kl. 22.21 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Hafnarfjarðarveg á hægri akrein, og bifreið, sem var ekið frárein Fífuhvammsvegar inn á Hafnarfjarðarveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar, ófrísk kona, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 13. október. Kl. 17.37 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut. Við Brunnhóla missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni vegna vatnsaga á akbrautinni með þeim afleiðingum að hún valt á toppinn. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.38 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Laugavegar og Bolholts. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 14. október. Kl. 2.41 var bifreið ekið austur Hringbraut, í Melatorgið og út úr því austan Suðurgötu þar sem hún fór yfir trjágróður og stöðvaðist á steinvegg við Þjóðminjasafnið. Eldur kom upp í bifreiðinni, en fljótlega tókst að slökkva hann. Losa þurfti ökumanninn með aðstoð tækja slökkviliðsins. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.10 féll drengur af vespu er henni var ekið eftir göngubrú yfir Hafnarfjarðarveg gegnt Löngufit. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 15. október. Kl. 14.54 féll kona af reiðhjóli á Strandvegi á móts við Geldinganes. Hún var flutt á slysadeild. Og kl. 17.56 féll ökumaður af bifhjóli, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut sunnan Miklubrautar. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi við Reykjanesbraut.

Frá vettvangi við Reykjanesbraut.