1 Mars 2021 11:42

33 ökumenn voru í liðinni viku kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. Hraðast ók ökumaður fólksbifreiðar á Suðurstrandavegi þann 25. febrúar en hraði bifreiðar hans mældist 149 km/klst.

5 ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og af þeim voru 2 sem svöruðu jákvætt við fíkniefnaprófi.   Einn var stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Aðilar þessir voru stöðvaðir á Selfossi, í Þorlákshöfn, í uppsveitum Árnessýslu, í Rangárvallasýslu og á Höfn.

Ökumaður dráttarvélar með eftirvagn var kærður fyrir að flytja of þungan farm á Suðurlandsvegi þann 27. febrúar en viðkomandi var í vinnu við flutning jarðefna. Þá var ökumaður á „Pickup“ bifreið stöðvaður og gert að binda heyrúllu sem hann flutti lausa á vagni bifreiðar sinnar.   Einhverjum kann að finnast slíkt óþarfi en lendi bifreið með heyrúllu á palli eða annan þungan flutning í árekstri heldur farmurinn áfram þó bifreiðin hemli eða stöðvist af öðrum orsökum og þá á ökumannshúsið sem almennt er ekki gert til að verjast framskriði farms.

Framkvæmd var s.k. vegaskoðun á 13 stórum ökutækjum og reyndist þörf á að gera athugasemd við ljósabúnað á einu þeirra.

Tvö umferðaróhöpp urðu með skömmu millibili á Suðurlandsvegi skammt frá Litlu kaffistofunni. Í fyrra óhappinu fauk kerra aftan í bifreið til þannig að bifreiðin lenti á vegriði.   Þegar lögreglumenn voru við störf á vettvangi urðu þeir þess varir að bifreið var ekið aftan á aðra á leið þeirra niður Draugahlíðarbrekkuna.   Ekki urðu slys á fólki en flytja þurfti aftari bifreiðina á brott með dráttarbíl þar sem hún var óökufær.   Ökumaður bifreiðarinnar hafði innan við klukkustund fyrr verið stöðvaður fyrir hraðakstursbrot á Biskupstungnabraut þá á 120 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst

Aðfaranótt 25. febrúar vaknaði íbúi á Selfossi við mannaferðir í íbúð sinni.   Sá flúði út en í ljós kom að viðkomandi hafði haft á brott með sér húsmuni sem fundust skammt frá vettvangi.   Aðili sem passaði við nokkuð greinargóða lýsingu tilkynnanda fannst skömmu síðar nærri vettvangi og var hann handtekinn og færður í fangageymslu á Selfossi.   Yfirheyrður daginn eftir en kannaðist þá ekki við meint brot.   Málið er í áframhaldandi rannsókn.

Aðili sem var í s.k. skimunarsóttkví í sumarbústað í umdæminu reyndist hafa fengið ættingja í heimsókn til sín.   Aðili þessi hafði skilað neikvæðu PCR prófi við komu til landsins og skimun á landamærum verið neikvæð. Allt að einu var gestinum gert að sæta sóttkví þar til niðurstaða seinni skimunar liggur fyrir.   Málið sent ákæruvaldi til meðferðar.