11 Júlí 2022 12:12

Farþegi í jeppabifreið lést þegar bifreiðinni var ekið út af Meðallandsvegi aðfaranótt föstudagsins 8. júlí s.l. Tveir farþegar voru fluttir alvarlega slasaðir með þyrlu til Reykjavíkur en eru, eftir því sem best er vitað,  á batavegi.  Ökumaður slapp ómeiddur úr slysinu.   Hann er grunaður um ölvun við akstur bifreiðarinnar.    Málið er í hefðbundnum rannsóknarferli en að þeirri rannsókn kemur auk lögreglu á Suðurlandi, m.a. með aðstoð sérfræðings í rannsóknum ökutækja,  tæknideild lögreglu höfuðborgarsvæðisins.   Upplýsingar um einstaka rannsóknarþætti verða ekki gefnar á meðan á rannsókninni stendur.

18 önnur umferðarslys eru skráð í vikunni á Suðurlandi.  Eitt þeirra á Fjallabaksleið þann 8. júlí en þar rákust saman tvær bifreiðar.  Tveir fluttir af vettvangi í sjúkrabifreið en aðrir ómeiddir.  Hálendisgæsla Landsbjargar aðstoðaði á vettvangi við fyrstu aðgerðir enda staðsett í Landmannalaugum, skammt frá vettvangi, með bækistöðvar sínar.  Daginn áður varð tjón á þremur húsbílum í þremur aðskildum málum í Öræfum þegar þeir fuku út af vegi og skemmdust verulega.   Meiðsli á ökumönnum og farþegum í öllum tilfellum minniháttar

40 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku.  7 þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði,  4 í Rangárþingi, 11 í V-Skaftafellssýslu og 17 í Árnessýslu.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir í Rangárþingi grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna eða lyfja.   8 aðrir voru stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru að aka ölvaðir, tveir þeirra í Rangárþingi en aðrir tveir í Árnessýslu.

7. júlí var einnig annasamur hjá okkar fólki í Landsbjörgu því þau aðstoðuðu veðurteppt fólk á Fimmvörðuhálsi, villta hestamenn á Fjallabaksleið og örmagna göngufólk á Laugaveginum, skammt frá Landmannalaugum.

Landsmót hestamanna fór fram á Rangárbökkum í liðinni viku,  á Helluflugvelli var flughátíð og á Selfossi var „Kótilettan“ haldin og eðli málsins samkvæmt mjög margir á ferð í kring um þessi hátíðahöld auk þess sem sumarfrí eru í gangi með tilheyrandi umferðarþunga á vegum umdæmisins. Efni eru til að hrósa mótshöldurum fyrir skipulag og gæslu og mótsgestum allra þessara hátíða almennt fyrir framgöngu.

Verulega var bætt í löggæslu vegna þessara viðburða og gekk hún almennt vel.   Meðal aðstoðarliðs var fíkniefnahundur Lögreglunnar í Vestmanneyjum og leiddi þátttaka hans í gæslunni til þess að 17 fíkniefnamál komu upp.   Þau varða öll vörslu og neyslu efna, ýmist kannabisefni, amfetamín eða kókaín.   Ein stúlka leitaði aðstoðar lögreglu vegna vanlíðunar, lýsti neyslu fíkniefna og áfengis og var ekið að sjúkrahúsi.  Þegar þangað kom hætti hún að svara lögreglumönnum og hófust þá þegar endurlífgunartilraunir á plani sjúkrahússins.  Þær báru árangur og henni komið í hendur sjúkraliðs sem einnig var komið á vettvang.

Þrjár kærur vegna kynferðisbrota bárust lögreglu í liðinni viku og tengist eitt þeirra rannsókn á heimilisofbeldismáli sem einnig var tilkynnt í liðinni viku.  Þau mál til rannsóknar hjá rannsóknardeild.