7 Nóvember 2016 13:54
Í vikunni hafði lögreglan afskipti af tveimur rjúpnaveiðimönnum sem höfðu skotið rjúpur í landi án leyfis landeiganda. Í ljós kom að veiðimennirnir höfðu fengið leyfi landeiganda annars lands. Hér mun hafa verið um að ræða óvarkárni veiðimanna, töldu sig hafa verið að veiða í landi þess er veitti leyfið. Veiðimenn eru hvattir til að gæta vel að þessum mikilvæga hlut í gengslum við veiðiskap.
Að morgni laugardagsins 5. nóvember var lögreglunni tilkynnt að stytta, sem var áföst kaþólsku við Mjallargötu á Ísafirði, hafi verið skemmd. Þessa sömu nótt var rúða brotin í íþróttahúsinu á Torfnesi, á Ísafirði. Umrædda nótt var iPhone 6 stolið af veitingahúsgesti á Ísafirði. Lögreglan óskar eftir upplýsingum um þessa verknaði, búi einhver yfir þeim. Sími lögreglunnar á Vestfjörðum er 444 0400. Eins tekur lögreglan við skilaboðum í gegnum facebooksíðu lögreglunnar á Vestfjörðum.
Í vikunni, n.t.t. 3. nóvember, var lögreglan við eftirlit í flugstöðvarbyggingunni við Ísafjarðarflugvöll. Höfð voru afskipti af tveimur flugfarþegum sem voru að koma með áætlunarvél úr Reykjavík. Fíkniefni fundust á öðrum þeirra, eða um 40 grömm af kannabisefnum.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis í liðinni viku. Báðir voru þeir í akstri á Patreksfirði.
Alls voru 20 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni. Flestir voru þessir ökumenn stöðvaðir á Djúpvegi, n.t.t. í Strandabyggð og eins í Ísafjarðardjúpi. Sá sem hraðst mældist á 132 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km.
Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í vikunni. Annað varð aðfaranótt 7. nóvember þegar vegkantur gaf sig undan vöruflutningabifreið. Vagninn slitnaði frá dráttarbílnum við óhappið og rann hvoru tveggja alllanga leið án þess þó að velta. Ökumann, sem var einn í bifreiðinni, sakaði ekki. Atvikið gerðist þegar tvær vöruflutningabifreiðar mættust á svokölluðum Fellabökum, skammt frá bænum Ósi í Strandabyggð. Hitt óhappið var minniháttar, í miðbænum á Ísafirði.