8 Október 2003 12:00

Í gærkveldi fann lögreglan á Ísafirði fíkniefni, neysluáhöld og peninga í tveimur húsleitum sem hún framkvæmdi á Ísafirði.  Fjórir karlmenn voru handteknir í tengslum við málið.

Einum fjórmenninganna, manni á þrítugsaldri, sem hefur viðurkennt að hafa keypt fíkniefni af einum hinna þriggja í gærkveldi, hefur verið sleppt.  

Hinir þrír karlmennirnir, sem eru á aldrinum frá 20 til 24 ára, eru allir enn í haldi lögreglunnar vegna rannsóknar málsins. 

Húsleitirnar voru framkvæmdar að fengnum úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða.  Lögreglan rannsakar mál þetta sem fíkniefnadreifingarmál og vill ekki gefa upp hversu mikið magn af fíkniefnum fannst, né heldur hversu miklir peningar fundust í húsleitunum.  Rannsókn málsins stendur yfir og munu verða gefnar frekari fréttir af málinu síðar.

Við húsleitirnar nutu lögreglumenn á Ísafirði aðstoðar fíkniefnaleitarhundsins Dofra, sem er í eigu eins varðstjórans í liðinu.