15 Febrúar 2010 12:00

Samkvæmt upplýsingum frá starfshópi ríkislögreglustjóra, sem hefur eftirlit með tækjum og búnaði lögreglunnar, var 163 ökutækjum lögreglunnar ekið um 600 þúsund kílómetrum minna á árinu 2009 en árið áður.  Í fyrra voru eknir kílómetrar 4.521.354 sem er um 12% minni akstur en á árinu 2008. 

Þá hefur tjónakostnaður sem fellur á lögregluna lækkað verulega milli ára, eða úr 13 milljónum árið 2008 í 5,4 milljónir á síðasta ári.  Undir þennan lið falla öll tjón sem tryggingafélög bæta ekki. 

Starfshópurinn telur að lægri tjónakostnað megi rekja til aukinnar fræðslu sem forvarnarhópur ríkislögreglustjóra, Ríkiskaup og Tryggingamiðstöðin standa fyrir, virkari kennslu í forgangsakstri og aðhalds sem starfshópurinn sjálfur veitir.  Hins vegar séu skertar fjárheimildir megin ástæða þess að ökutækjum lögreglunnar er ekið minna en áður.