14 Mars 2020 14:11

Almannavarnanefnd Austurlands hefur upplýsingar um að stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar á svæðinu hafi frá byrjun sýnt ábyrg viðbrögð vegna COVID 19 veirunnar og að margir vinni þegar að útfærslu þess sem undir þá heyrir vegna fyrirhugaðs samkomubanns. Allt þetta til að draga úr smiti, verja þá sem viðkvæmastir eru fyrir og innviði samfélagsins.

Ástæða er til að gleðjast yfir þessari vinnu sem virðist langt komin víða og jafnvel fullbúin. Minnt er í þessu sambandi á viðbragðsáætlun Almannavarna um heimsfaraldur, bls. 112 til 114, fyrir þá sem skemur eru komnir, en þar má meðal finna gátlista að styðjast við;

https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item29596/

Spurningum hefur verið beint til nefndarinnar um möguleg áhrif nýjustu tíðinda um samkomubann á aðgengi að matvöru til að mynda og öðrum nauðsynjum. Því er til að svara að nóg er til af slíkum varningi á svæðinu samkvæmt fyrirsvarsmönnum verslana og birgjum þeirra. Ástæðulaust er því að breyta hefðbundnum innkaupum vegna þessa.

Nefndin hvetur íbúa að endingu til fylgja leiðbeiningum stjórnvalda í hvívetna og áréttar að það er með samstilltu átaki sem við komumst best í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika. Gleymum heldur ekki að hugsa vel um okkur sjálf og hvert annað.

Almannavarnanefnd Austurlands mun annars senda út tilkynningar á þessum vettvangi eftir því sem þurfa þykir og málum vindur fram.