26 Október 2023 15:55

Vegna fréttaflutnings af aðgerðum sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu stóð að í Grafarvogi í gærkvöld, vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu árétta að hún var þar til þess að gæta öryggis, eins og venjan er í viðlíka málum. Af þeirri ástæðu fóru fjórir, óeinkennisklæddir lögreglumenn á staðinn til þess að tryggja öryggi fólks á vettvangi, líkt og lög kveða á um.

Þegar hins vegar afgreiðsla málsins dróst á langinn, mannfjölda dreif að og aðstæður breyttust á vettvangi var ákveðið að kalla eftir liðsauka þar sem öryggi fólks á vettvangi þótti ekki lengur tryggt. Lögreglumennirnir, sem fengu það hlutverk, voru einkennisklæddir, en þeir voru á vaktinni við almennt eftirlit annars staðar og brugðust hratt við þegar liðveislu þeirra var óskað í áðurnefndu máli. Hafði þá aðgerðin varað í tæplega tvær klukkustundir.