18 Júlí 2019 13:35

Undanfarið hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið nokkuð við hraðamælingar á Hringbraut í Reykjavík, þ.e. vegkaflanum á milli Sæmundargötu og Ánanausta í kjölfar þess að leyfður hámarkshraði var lækkaður þar úr 50 í 40. Niðurstöður þessara mælinga hafa verið birtar hér á fésbókinni og því höldum við uppteknum hætti, en eftir hádegi í gær var lögreglan einmitt við hraðamælingar á svæðinu. Þá óku á einni klukkustund 322 ökutæki Hringbraut í vesturátt, við Vesturvallagötu. 92 ökutækjum var ekið of hratt og því var brotahlutfallið 29%, en meðalhraði hinna brotlegu var 54 km/klst og sá sem hraðast ók mældist á 70. Þetta er svipuð niðurstaða og síðast þegar lögreglan var við hraðamælingar á Hringbraut við Vesturvallagötu. Þá var meðalhraði hinna brotlegu líka 54 km/klst, en brotahlutfallið reyndar aðeins lægra, eða 26%. Svo virðist sem sumir ökumenn hafi ekki áttað sig á lækkuðum hámarkshraða á þessum stað, eða sjái hreinlega ekki ástæðu til að virða hann af einhverjum ástæðum.