6 Febrúar 2014 12:00

Fyrir margt löngu þóttu þeir dálítið skrýtnir sem fóru út að hlaupa. Seinna varð skokk almenningsíþrótt og nú kippir sér enginn upp við það að fólk sé úti að hlaupa. Þetta er rifjað upp hér því í gærmorgun barst lögreglu tilkynning um mann á hlaupum í miðborginni, en sá var sagður vera ekki alveg í lagi. Lögreglan fór þegar að svipast um eftir manninum og sá hann fljótlega á hlaupum skammt frá lögreglustöðinni við Hlemm. För hans var stöðvuð, en ekkert athugavert reyndist vera við manninn nema kannski það að hann var berfættur. Slíkt er í sjálfu sér ekki beinlínis lögreglumál og var skokkaranum, sem var allsgáður og sagðist stunda það að hlaupa berfættur, leyft að halda hlaupinu áfram. Auðvitað er þetta ekkert einsdæmi, og t.d veit sá sem þetta ritar að menn hlaupa berfættir heilt maraþon úti í heimi og þykir ekki tiltökumál. Að hlaupa berfættur í fljúgandi hálku um stræti og torg á Íslandi er hins vegar dálítið annað mál, eða svo myndu e.t.v. einhverjir halda.