2 Nóvember 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill koma því á framfæri að ekkert ferðaveður er á Kjalarnesi, Sæbraut og í næsta nágrenni við strandlengjuna þessa stundina þar sem sjór gengur á land en bílar hafa fokið á Kjalarnesi. Við viljum einnig biðja fólk um að gæta að börnum sínum enda sérstaklega erfitt fyrir þau að fóta sig í veðrinu. Mikið er um fok á lausamunum, fólk að fjúka til og slasast lítillega vegna þessa. Í miðbænum hafa borist margar tilkynningar um fólk sem fokið hefur undan veðurhamnum, lausamunir fjúkandi og því mikilvægt að fólk sé alls ekki á ferli að nauðsynjalausu. Björgunarsveitir eru við störf og eru 22 hópar frá þeim, um 120 manns að störfum. Töluvert er af verkefnum og mörg verkefni bíða, en nauðsynlegt er að forgangsraða þeim.

Ábendingar hafa líka borist um að sérlega varasamt sé að vera á ferðinni fótgangandi við Turninn í Höfðatúni/Borgartúni. Þegar hefur verið tilkynnt um konu sem slasaðist er vindhviða feykti henni á húsvegg.