24 Október 2020 10:00

„Í október og nóvember var mikið um slys í umferðinni í Reykjavík og rak hvert stórslysið annað. Samstarfsnefnd tryggingafélaganna leitaði til umferðardeildar um samstarf við að koma hér upp í borginni sýningu á flökum af bílum, sem lent höfðu í árekstrum og slysum. Var þetta mál rætt sérstaklega við borgarverkfræðing og lögreglustjórann í Reykjavík og hófst sýningin 9. nóvember. Stillt var upp bílflökum á fjórum stöðum: bílastæðinu við Austurstræti, Gimli við Lækjargötu, bílastæðinu við Kalkofnsveg og við athafnasvæði bifreiðaeftirlitsins við Borgartún. Efnt var til fundar með blaðamönnum og farið með þá milli svæðanna, þar sem bílflökunum var komið fyrir. Bílflökunum var öllum komið fyrir á vögnum og Rafmagnsveita Reykjavíkur sá um að lýsa þau upp. Ennfremur voru sett stór spjöld við vagnana, þar sem greint var frá orsökum og afleiðingum hvers slyss. Mikið var skrifað og rætt um þessa sýningu og segja má, að fá atriði varðandi umferðaráróður hafi vakið jafn mikla athygli og umtal. Ellefu aðilar létu í ljósi álit sitt á sýningunni í dagblöðum og vikublöðum og voru tíu þeirra sammála um, að sýning sem þessi gæti haft jákvæðan árangur. Sýningin stóð yfir í um það bil eina viku. Samstarfsnefnd bifreiðatryggingafélaganna bar mest allan kostnað af sýningunni.“

Hér er aftur vitnað í ársskýrslu umferðardeildar gatnamálastjóra Reykjavíkur, sem kom út fyrir árið 1965, en í kjölfar sýningarinnar á bílflökunum voru útbúin aðvörunarspjöld. „Samstarfi því, sem hófst með sýningunni á bílflökunum við samstarfsnefnd bifreiðatryggingafélaganna, var haldið áfram og var næst ákveðið að láta útbúa aðvörunarspjöld varðandi ölvun við akstur. Áletrun á þessum spjöldum var: „Bakkus er ekki góður ökumaður.“ „Varið aðra við.“ Prentuð voru rúml. 20 þús. spjöld og þeim dreift samfellt í tvo mánuði á bílastæði og í næsta nágrenni vínveitingastaðanna. Dreifingin hófst 2. nóvember 1965 og stóð til 1. janúar 1966. Farið var yfir allar skýrslur , sem voru teknar af ökumönnum, sem grunaðir voru um ölvun við akstur frá 1. desember til 1. janúar. Kom þá í ljós, að aðeins 6 af 41 komu frá vínveitingastöðunum.“

Á meðfylgjandi mynd má sjá umfjöllun um umferðarslys í Vísi frá þessum tíma, en í grein blaðsins má m.a. lesa að 27 létust í umferðarslysum á Íslandi árið 1964 og 24 árið 1965.