15 Desember 2016 16:47

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú nokkur tilvik þar sem grunur leikur á að karl á sextugsaldri hafi reynt að hafa fé af fólk með ólögmætum hætti. Málið kom á borð lögreglu um síðustu mánaðamót, en þá var lögð fram kæra á hendur manninum. Hann var handtekinn daginn eftir og úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald, en í umræddu máli er manninum gefið að sök að hafa reynt að blekkja eldri konu til greiðslu peninga vegna þess að hún hafi valdið umferðarslysi. Maðurinn hafði samband símleiðis og bar á viðkomandi að hafa ekið á barn, en ekki yrði gert frekar úr málinu ef hún fengist til að greiða honum tiltekna upphæð og þar með yrði málið látið niður falla. Önnur tilvik, sem lögreglan hefur einnig til rannsóknar á hendur manninum, eru af sama toga, en meintir brotaþolar eru eldra fólk og/eða fólk í viðkvæmri stöðu.

Málið er nokkuð viðamikið, en við húsleit á heimili mannsins var lagt hald á tölvur og síma í þágu rannsóknarinnar. Ef einhverjir kunna að hafa fengið símtal líkt og það sem að framan er lýst, eru hinir sömu vinsamlega beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.