13 Desember 2016 15:50

Sex umferðaróhöpp urðu í umdæmi LVL í sl. viku öll án teljandi meiðsla á fólki að því best er vitað.

Sl. nótt fór fólksbíll útaf Snæfellsnesvegi í hálku undir Búlandshöfða. Ökumaðurinn var einn í bílnum og slapp hann ómeiddur. Bíllinn var óökufær. Maðurinn þurfti að ganga smá spöl frá bílnum til að komast í símasamband.

Nokkuð harður árekstur varð á Borgarfjarðarbraut sl. laugardag þegar bíll rann í hálku yfir á rangan vegarhelming og í veg fyrir bíl sem að kom úr gagnstæðri átt. Ekki urðu teljandi meiðsl á fólki enda allir í öryggisbeltum. Bílarnir voru báðir óökufærir.

Fólksbíl var ekið inn í hóp af ungnautum sem voru á Snæfellsnesvegi við bæinn Þverá síðdegis sl. laugardag. Lenti bíllinn utan í en ekki beint á gripunum. Bíllinn var ökufær og ungnautin hlupu skelkuð út í myrkrið og virtust hafa sloppið með skrekkinn en bóndinn ætlaði að huga betur að þeim í birtingu.
Mikilvægt er að bændur og búalið hugi vel að gripum sínum og girðingum, ekki síst núna í skammdeginu og komi í veg fyrir lausagöngu á vegsvæðum. Stórgripir geta valdið miklum skaða verði þeir fyrir bílum eins og dæmin sanna í gegnum tíðina.

Um sl . helgi rann fólksbíll útaf veginum í sunnanverðri Bröttubrekku og undirvagn bílsins skemmdist nokkuð. Ökumaðurinn fann til eymsla í baki og var ráðlagt að fara í læknisskoðun.

Nokkur grömm af kannabisefnum fundust við leit sem gerð var í húsi á Akranesi um sl. helgi. Grunur hafði vaknað um kannabisneyslu vegna mikillar kannabislyktar sem lagði frá íbúð mannsins.