11 Júlí 2016 10:43

Síðdegis á laugardag voru höfð afskipti af rútubílstjóra við Seljalandsfoss sem var með farþega á vegum rússneskrar ferðaskrifsofu. Bílstjórinn var rússneskur og hafði þann starfa að aka hópum á vegum ferðaskrifstofunnar um Ísland.  Ekkert rekstrarleyfi var til staðar.  Ökmaður var ekki með ökuritaskífu í ökurita rútunnar og hann ekki með ökuréttindi til aksturs í atvinnuskyni á Íslandi.  Ökumaðurinn var handtekinn og færður til yfirheyrslu á lögreglustöðinni á Selfossi.  Að henni lokinni féllst hann á lögreglustjórasátt sem fólst í 65000 króna sekt.  Að því loknu var hann frjáls ferða sinna en annar bílsjóri sá um að aka rútunni með farþegunum til Reykjavíkur en þeir áttu að fara í flug síðar um kvöldið.

Í gær var ökumaður staðinn að því við Gullfoss að aka með erlenda ferðamann í leigubíl í atvinnuskyni án réttinda og auk þess að hafa ekki fullgild ökuréttindi til aksturs leigubíls. Ökumaðurinn var færður í lögreglustöð til yfirheyrslu.

Svo virðist sem nokkuð vanti uppá að þeir sem stunda akstur með farþega hafi gild hópferða- og rekstrarleyfi eða ökumenn með ökurita í lagi. Sex voru kærðir í vikunni fyrir brot af þessu tagi.  Þess má geta að í tilvikum sem kært er vegna ökurita að þá er ökumaður og umráðamaður kærðir og refsing umráðamanns þyngri en ökumanns.

Tékkneskir ferðamenn voru stöðvaðir á bifreið á þjóðveginum í Eldhrauni. Þeir sögðust hafa tekið bifreiðina á leigu í gegnum netið en voru ekki með leigusamning og bifreiðin var ekki skráð sem bílaleigubifreið.

Eldur kom upp í rafmagnstöflu á Hótel Höfn uppúr hádegi á þriðjudag. Lögregla, sjúkralið og slökkvilð fór þegar á vettvang.  Hótelið var rýmt en fáir voru innandyra.  Slökkviliðsmenn réðu fljótt niðurlögum eldsins sem var staðbundinn í rafmangstöflu í kjallara hótelsins.  Ekki liggur fyrir um hvað varð til þess að eldurinn kviknaði en rafmagnstaflan verður send til tæknirannsóknar.  Enginn slys urðu á fólki og tjón lítið.

Ökumaður torfæruhjóls missti stjórn á hjólinu þegar það ofreisti sig þegar ökumaður var að fara yfir hæð á torfærubraut austur á Höfn síðastliðinn fimmtudag. Maðurinn var fluttur á heilsugæsluna á Höfn til skoðunar en hann fann til eymsla í baki.

Fimm ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur í vikunni þar af einn á hálendinu. Einn var kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og 47 fyrir hraðakstur.