23 Ágúst 2016 14:40

Níu umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi í sl. viku, þar af urðu fjögur í gær mánudag.  Eitt umferðarslys varð þar sem börn án öryggisbelta í aftursæti slösuðust og annað þeirra kastaðist út úr bíl sem fór útaf og valt.

Umferðarslys varð á Laxárdalsheiði í Dalabyggð síðdegis á mánudag. Erlendir ferðamenn á bílaleigujeppa misstu bílinn sinn útaf malarveginum á Laxárdalsheiði og fór bíllinn nokkrar veltur áður en hann stöðvaðist á réttum kili.  Fjórir voru í bílnum, ökumaður og farþegi í framsæti voru með öryggisbeltin spennt og sluppu án meiðsla en tvö 10 og 12 ára börn, farþegar í aftursæti voru ekki með beltin spennt og slösuðust bæði og annað þeirra kastaðist út úr jeppanum sem að fór útaf og valt nokkrar veltur.  Fólkið var flutt á brott með sjúkrabílum frá Búðardal og kranabíll var kallaður til vegna jeppans.

Þá losnaði tvöfaldur hjólbarði undan dráttarbíl tengivagns með heitu malbiki sem var á leið vestur Snæfellsnesveg og lenti dekkið utan í hlið átta manna fólksbíls sem kom úr gagnstæðri átt.  Fólksbíllinn lenti útaf veginum og hafnaði út í móa en hélst á réttum kili.  Engin meiðsl urðu á fólki.

Lögreglan tók tvo ökumenn grunaða um akstur undir áhrifum fíkniefna í öðrum bílnum fannst lítilræði af ætluðu amfetamíni. Þá var einn ökumaður tekinn fyrir meinta ölvun við akstur í sl. viku.

Alls voru um 700 ökuhraðamál tekin til skráningar hjá LVL í sl. viku.  Þarna er um myndir af ökumönnum að ræða sem teknar voru af sjálfvirku hraðamyndavélunum sem staðsettar eru víðs vegar um landið.  Af þessum 700 voru 140 myndir teknar af myndavélunum sem staðsettar eru við Hagamel við Laxá og við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls í Hvalfjarðarsveit.  Þá tóku lögreglumenn í umferðareftirliti á Vesturlandi um 30 ökumenn fyrir of hraðan akstur.