29 Febrúar 2016 21:30

Betur fór en á horfðist þegar lögreglan var kölluð að Arnarholti á Kjalarnesi á áttunda tímanum í kvöld, en þar var tilkynnt um mann sem hótaði að bera eld að sjálfum sér. Sá reyndist vera hælisleitandi, en viðkomandi var rólegur þegar lögreglan kom á vettvang og hafði ekki borið eld að sér eða húsnæðinu í Arnarholti. Ástæðan fyrir hótun mannsins mun vera óánægja hans með afgreiðslu mála hjá yfirvöldum, en þau hafa mál hans til meðferðar. Maðurinn var færður af staðnum og til dvalar annars staðar, en hann er undir eftirliti starfsmanna Útlendingastofnunar.

Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna málsins, en tilkynningin um hótunina barst kl. 19.40. Málið var tekið mjög alvarlega, en auk lögreglu fór slökkviliðið á vettvang. Aðgerðum var lokið rétt fyrir klukkan níu í kvöld.