25 Ágúst 2015 12:56

Nýverið kom fram umræða um það hvort að innbrotum í bíla hafi fjölgað mikið í Garðabæ. Vegna þessa kannaði Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvort að aukning hafi orðið í slíkum brotum. Skemmst er frá því að segja að frá áramótum hafa 10 innbrot í bíla verið tilkynnt í Garðabæ en slíkt er töluvert undir meðallagi við önnur hverfi höfuðborgarsvæðisins.

Lögreglan fær reglulega ábendingar um að tilteknum brotum hafi fjölgað, stundum í ákveðnum hverfum, en þegar það gerist er strax skoðað hvort að þær ábendingar passi við tilkynningar um brot en ef grunur leikur á að afbrotum sé að fjölga er gripið til aðgerða skv. því.

Við brýnum fyrir eigendum ökutækja að tilkynna innbrot og þjófnaði, en ekki síður að gæta þess vel að læsa ökutækjum og skilja ekkert eftir á glámbekk sem kann að freista fingralangra. Því má bæta við að virk nágrannavarsla skilar sínu, en í því felst m.a. að fylgjast með grunsamlegum mannaferðum og láta lögreglu vita, ef þörf er á.