17 Júlí 2007 12:00
Nítján ára piltur braust inn í bíl í austurborginni í gær og stal greiðslukortum, peningum og síma. Þjófurinn náði að kaupa vörur út á hin stolnu kort á tveimur stöðum áður en til hans náðist. Pilturinn hefur áður komið við sögu hjá lögreglu. Í miðborginni var fartölva tekin úr bíl en þjófsins er enn leitað. Lögreglan vill ítreka það við ökumenn að skilja ekki verðmæti eftir í bílum. Sé það óumflýjanlegt er mikilvægt að verðmæti séu ekki í augsýn.
Nokkur innbrot í bíla voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en þjófar virðast m.a. sækjast eftir geislaspilurum, myndavélum og GPS-tækjum. Í einu tilfelli náðust innbrotsþjófarnir á vettvangi en það reyndust vera tveir piltar, 14 og 15 ára, sem fóru með ránshendi um bíla í Mosfellsbæ. Íbúar sáu til þeirra og héldu þeim föstum þar til aðstoð lögreglu barst.