5 Desember 2018 13:44

Síðastliðnar tvær vikur hefur verið brotist inn í þrjú heimili á höfuðborgarsvæðinu, eitt í Mosfellsbæ og tvö í Grafarvogi. Farið var inn um glugga í eða við svefnherbergi, leitað að skartgripum og reiðufé að því er best verður séð og vettvangur svo yfirgefinn.

Aðferðinni svipar mjög til þeirrar sem erlendir brotahópar hafa viðhaft hér á landi. Þeir hafa þá komið til landsins gagngert í þeim tilgangi að brjótast inn, helst á þessum árstíma. Fara þeir þá inn í einbýlishús á jaðarsvæðum, hús sem eru við göngustíga til að mynda þar sem ekki sést til úr öðrum húsum. Gerendur eru karlmenn og gjarnan tveir saman. Þeir fremja brot sín á virkum dögum þegar líklegt er að enginn sé heima. Þeir eru fótgangandi, bera litla tösku eða bakpoka og nota jafnvel almenningssamgöngur, strætó, fremur en einkabíla.  

Í morgun var eitt þessara þriggja innbrota framið og kom íbúi að viðkomandi sem þá forðaði sér. Hann sást illa og engin lýsing því á honum.

Lögregla biður íbúa á höfuðborgarsvæðinu að vera vel á verði af þessu tilefni, gæta að verðmætum, læsa vel húsum sínum og láta vita um grunsamlegar mannaferðir í síma 112.