7 Febrúar 2012 12:00
Í umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum fækkaði innbrotum um 27.8% milli áranna 2010 og 2011 samkvæmt bráðabirgðatölum. Byrjunin á árinu 2012 lofar góðu og var fjöldi innbrota nú í janúarmánuði færri en í sama mánuði og árið á undan. Það sem af er Þorra hefur ekki verið tilkynnt um innbrot til lögreglunnar í umdæminu eða allt frá 18. janúar s.l.. Mikilvægt er að sú jákvæða þróun sem af er nýju ári verði viðvarandi og vill lögreglan brýna fyrir fólki að tilkynna allar grunsamlegar mannaferðir til lögreglu en slíkar upplýsingar hafa bæði komið í veg fyrir innbrot svo og leitt til þess að upplýsa eldri og óupplýst mál. Einnig vill lögreglan koma því á framfæri við íbúa að þeir sjái til þess að óviðkomandi hafi ekki greiðan aðgang að eigum þess og hafa í huga að innbrot eiga sér stað á öllum tímum sólarhrings.