13 Júní 2014 12:00
Verkefni lögreglunnar eru mörg og margvísleg og ýmislegt getur komið upp á vaktinni. Þannig var því einmitt farið seint í gærkvöld þegar kallað var eftir aðstoð lögreglu í Hafnarfirði, en köttur í bænum hafði ratað í vandræði. Tveir lögreglumenn fóru strax á vettvang, en þar var að finna kisu í sjálfheldu. Raunar var þetta kettlingur, en sá hafði fest hausinn í gati á fiskikari. Sjálfsagt hefur kisi runnið á lyktina og hugsað sér gott til glóðarinnar, en fiskvinnsla er á þessum stað í bænum. Ekkert varð þó af fyrirhugaðri máltíð og matarleiðangur kisu breyttist í martröð. Lögreglumennirnir lentu í nokkru basli þegar kom að því að losa köttinn enda ekki hægt að treysta á verklagsreglur í tilvikum sem þessum. Þrautseigja og hyggjuvit þeirra varð þó til þess að eftir nokkrar tilraunir tókst að losa kettlinginn úr prísundinni. Hann var frelsinu feginn, en til stóð að færa kettlinginn í Kattholt eftir þetta mikla ævintýri.