17 Apríl 2008 12:00

Verkefni lögreglu eru af ýmsum toga og sum eru óvenjulegri en önnur. Einu slíku útkalli var sinnt á dögunum en í umræddu tilviki var óskað eftir lögregluaðstoð að ónefndu húsi á höfuðborgarsvæðinu. Fregnir um ástand mála á vettvangi voru óljósar en þegar þangað var komið var karlmaður þar utandyra. Maðurinn var klæðalítill og raunar í baðsloppi einum fata og því skiljanlega nokkuð kalt en atvikið átti sér stað síðla kvölds. Við eftirgrennslan kom í ljós að hann var læstur úti heima hjá sér og því var úr vöndu að ráða. Fljótlega kom þó á daginn að maðurinn var ekki einn heima því sambýlis- eða vinkona hans reyndist vera innandyra þegar að var gáð. Reynt var að fá hana til að opna útidyrahurðina en konan var ekki mjög samvinnufús og tók því fálega. Svo fór þó að konan féllst á að opna fyrir manninum og komst hann því aftur inn í hlýjuna en ekki er fyllilega ljóst með hvaða hætti hann endaði fáklæddur fyrir utan heimili sitt.

Engin merki sáust um líkamlegt ofbeldi en fólkið hafði augljóslega átt í illdeilum og var áfengi haft um hönd en því var bent á að ræða frekar málin allsgáð. Um síðir róaðist ástandið og þá fór lögreglan af vettvangi en ekki er talið að manninum hafi orðið meint af útivistinni.