8 Mars 2019 17:30

Eins og gefur að skilja reynir mikið á ökutæki lögreglu enda eru þau í stöðugri notkun. Það á svo sannarlega við um lögreglubifreiðina 263, en hún hefur nú lokið hlutverki sínu hjá umferðardeildinni eftir 13 ára þjónustu. Bíllinn, sem er af gerðinni Volvo S80 árgerð 2006, hefur reynst ákaflega vel og sjaldan bilað. Hætt er við að margir lögreglumenn horfi á eftir lögreglubílnum með söknuði, en honum var skilað til Bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra á dögunum. Um næsta hlutverk bílsins er ekki alveg vitað, en trúlega mun hann þó eitthvað koma við sögu á vormánuðum þegar þjálfun lögreglumanna er annars vegar. Á myndinni afhendir Árni, varðstjóri í umferðardeildinni, Jarek hjá Bílamiðstöðinni lyklana að bílnum og þakkar fyrir góða þjónustu.