26 Mars 2021 15:47
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu boðaði til blaðamannafundar föstudaginn 24. mars þar sem til umfjöllunar var rannsókn embættisins á manndrápi í austurborginni í síðasta mánuði. Fulltrúar lögreglunnar á fundinum voru Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri, Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn og stjórnandi rannsóknarinnar, og Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðstjóri ákærusviðs. Hér að neðan fylgir það sem Hulda Elsa greindi frá um rannsóknina á blaðamannafundinum.
„Eins og komið hefur fram þá hófst rannsókn lögreglu rétt fyrir miðnætti þann 13. febrúar sl. Rannsóknin í heild sinni hefur einkennst af því, frá upphafi, að starfsmenn lögreglu hafa þurft að leggja á sig mikla vinnu til að afla sönnunargagna svo unnt væri að fá mynd af því sem raunverulega gerðist.
Hlutirnir gerðust hratt til að byrja með og sem dæmi um það má nefna að þá þegar um nóttina fór ákærandi lögreglu með kröfu í dóm til að krefjast þess að fjarskiptafyrirtækjum yrði gert að afhenda lögreglu fjarskiptagögn úr síma hins látna til að sjá við hverja hann var í samskiptum við fyrir andlátið og staðsetja ferðir hans. Dómari féllst á kröfu lögreglu um fimmleytið, og innan klukkutíma var lögð fram önnur krafa sem tók til húsleitar, sem dómari tók strax afstöðu til.
Þessar tvær kröfur ákæruvaldsins eru einungis lítið brot af þeim fjölda krafna sem hefur verið farið með í dóm og þeim greinargerðum sem hafa verið ritaðar til Landsréttar, en kröfur og greinargerðir í þessu máli eru alls um 100 talsins sem er ágætis viðmið um umfang sakamáls, en dómstólar þurftu að taka afstöðu í öllum tilvikum.
Einnig sýnir það umfang málsins að níu ákærendur embættisins hafa komið að málinu með einum eða öðrum hætti, og þar af hafa þrír ákærendur verið að vinna eingöngu við þetta mál frá því að það hófst. Oftast er bara einn ákærandi með hvert mál.
Hér hefur komið fram að einn sakborninganna hefur játað sök, og markar þessi játning ákveðin þáttaskil í rannsókninni. Játning er mjög sterkt sönnunargagn, en hún dugar ekki eins og sér til að brot teljist sannað, játning þarf að vera studd öðrum gögnum. Við teljum okkur vera með þau gögn og t.d. fannst morðvopnið fyrir um hálfum mánuði síðan, en það kom ekki upp í hendurnar á lögreglu frekar en önnur sönnunargögn, lögregla fékk enga ábendingu þar um, það var einungis fyrir innsæi og athyglisgáfu lögreglumanna og framúrskarandi rannsóknartækni að morðvopnið fannst.
Við höfum nú þegar kynnt Héraðssaksóknara helstu gögn málsins, og jafnframt kynnt honum að við teljum okkur vera með sterk sönnunargögn fyrir því hver það var sem banaði Armando Beqirai umrætt sinn. Rannsókn málsins stendur enn yfir eins og Margeir kom inn á, og varðar þátttöku annarra, og þegar henni er lokið verður málið sent Héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um framhald þess.
Eins og gengur og gerist með rannsókn sakamála almennt þá getur ýmislegt óvænt komið upp á, t.d. var það svo í þessu máli að lögregla sá sig knúna til að krefjast þess fyrir dómi að verjandi eins sakborninga segði sig frá málinu þar sem gögn málsins sýndu ótvírætt að viðkomandi var í samskiptum við vitni og sakborninga málsins bæði fyrir og eftir að hann hafði aðkomu að málinu sem verjandi. Við höfum bent á að það er afar fátítt að lögregla grípi til svona ráðstafana, við viljum taka hér sérstaklega fram að við höfum átt gott samstarf með lögmönnum, þar sem alla jafna ríkir gagnkvæm virðing fyrir störfum og hlutverkum hvers annars og skilningur. En það er þannig að lögreglumenn og ákærendur, þurfa ávallt að gæta að hæfi sínu þegar kemur að rannsókn sakamála og hið sama gildir um lögmenn.
Að lokum vil ég nefna að okkur hefur verið legið á hálsi að hafa verið spör á upplýsingar um málið til fjölmiðla og jafnvel hefur verið bent á að lögregla hafi veitt mun meiri upplýsingar í öðrum mjög umfangsmiklum morðmálum. En það er skýringar á þessu. Oftast í slíkum málum er sakborningur einungis einn, hér voru þeir á tímabili 9, sem allir sættu gæsluvarðhaldi á sama tíma, sem leiddi sjálfkrafa til þess að við þurftum að halda upplýsingum mjög þétt að okkur, við nýttum rétt okkar til að afhenda engin gögn til lögmanna sakborninga og við gerðum allt til að tryggja að engar upplýsingar gætu borist á milli. Til viðbótar þessu þá hefur einkennt þetta mál að við erum að rannsaka skipulagða brotastarfsemi, og því hafa brýnir rannsóknarhagsmunir staðið því í vegi að við gætum tjáð okkur mikið um framvindu rannsóknarinnar.“