26 Mars 2021 15:33

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu boðaði til blaðamannafundar föstudaginn 24. mars þar sem til umfjöllunar var rannsókn embættisins á manndrápi í austurborginni í síðasta mánuði. Fulltrúar lögreglunnar á fundinum voru Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri, Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn og stjórnandi rannsóknarinnar, og Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðstjóri ákærusviðs. Hér að neðan fylgir það sem Margeir greindi frá um rannsóknina á blaðamannafundinum.

„Lögreglan fékk tilkynningu um mann sem lá fyrir utan hús nr. 28 við Rauðagerði í Reykjavík rétt fyrir miðnætti þann 13. febrúar. Eftir flutning á slysadeild var albanskur karlmaður á fertugsaldri úrskurðaður látinn og mátti þá sjá nokkur skotför á líki mannsins. Var þá ljóst að um mögulegt manndráp af ásetningi væri að ræða og til þess hafi verið notað skotvopn. Krufning leiddi síðar í ljós að viðkomandi hafi verið skotinn 9 skotum í búk og höfuð með 22 cal. skotvopni.

Frá þeim tíma sem tilkynning barst beindist vinna lögreglu að því að ná utan um málið, sem var mjög umfangsmikið, en fljótlega lék grunur lögreglu á því að mögulega tengdist þetta einhverskonar uppgjöri á milli brotahópa hér á landi, bæði erlendum og íslenskum.

Rannsókn leiddi síðar til þess að 12 aðilar voru handteknir í tengslum við rannsókn málsins, en þeim fjölgaði síðan um tvo á síðari stigum, eða eftir aðgerð sem farið var í þann 18.mars sl. Samtals eru því 14 aðilar með réttarstöðu sakbornings í málinu. Alls voru 9 manns í gæsluvarðhaldi þegar mest var, en í dag er einn aðili í haldi vegna málsins, einn er að taka út afplánun vegna eldri dóma og sjö sæta farbanni.

Framkvæmdar voru 17 leitir, þ.e. í húsnæði, ökutækjum og á víðavangi. Við leitirnar var m.a. lagt hald á símtæki, tölvur, ökutæki, skotvopn, skotfæri og fleiri muni sem talið var að gætu nýst við rannsóknina. Rætt var við fjölda vitna að málinu, ásamt því sem talsverð upplýsingaöflun fór fram úr símtækjum, tölvugögnum og öryggismyndavélum svo eitthvað sé nefnt.

Vegna umfangs málsins og þeirra ganga sem lögreglan hafði lagt hald á tók talsverðan tíma að ná utan um þau gögn, sem  aflað var, en fljótlega fór athygli lögreglu að beinast að nokkrum aðilum, sem taldir eru eiga með einhverjum hætti þátt að þessum atburði í Rauðagerði. Snýr sá þáttur m.a. að aðkomu og skipulagi fyrir og eftir manndrápið. Yfirheyrslur yfir sakborningum, sem og gögn sem lögreglan hafði aflað sér í þágu rannsóknarinnar, leiddu til að skotvopn það sem notað var við verknaðinn í Rauðagerði, og var síðar staðfest með bráðabirgðaniðurstöðu sérfræðinga, fannst í sjó hér rétt utan við höfuðborgarsvæðið eftir leit lögreglu.

Líkt og fram hefur komið þá er þjóðerni þeirra sem eru með réttarstöðu sakbornings í málinu frá Íslandi, Rúmeníu, Spáni, Ítalíu, Portúgal, Albaníu, Eistlandi, Serbíu, Hvíta Rússlandi og Litháen. Vekur það kannski sérstaka athygli lögreglu hversu mörg þjóðerni tengjast málinu á einhvern hátt, en slík samvinna eða samskipti eru t.a.m. fátíð hjá okkar nágrannaríkjum.

Nú liggur fyrir játning í málinu sem passar við gögn og kenningar lögreglu um hvernig atburðarásin átti sér stað. Þau sem lögreglan telur eiga hvað mesta aðild að málinu koma frá Albaníu, líkt og hinn látni.

Rannsókn lögreglu er enn í fullum gangi, ásamt því sem rannsóknin beinist einnig að því hvort hópur manna ætli að ráðast gegn þeim sem liggja undir grun í málinu og fjölskyldum þeirra. Fór lögreglan ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra í aðgerðir fimmtudaginn 18. mars m.a. vegna þessara upplýsinga og vitneskju. Framkvæmdar voru þá sex húsleitir í tengslum við rannsóknina á Rauðagerðismálinu, sem og vegna þeirra upplýsinga sem lögreglan hafði, og hefur, undir höndum og gæti tengst brotahópum.

Lögreglan vill taka það sérstaklega fram að hún mun halda áfram að fylgjast náið með framvindu mála með tilliti til hættu á hefndaraðgerðum eða uppgjöri, sérstaklega eftir að játning lá fyrir. Jafnframt mun lögreglan grípa til viðeigandi ráðstafana verði hún vör við einhverskonar háttsemi er að framan greinir og einnig ef lögregla telji eða meti að almenningur sé í hættu.  Væri t.d. eitt viðbragðið að upplýsa viðkomandi.  Ég vill taka það sérstaklega fram að lögreglan telur að öryggi almennings sé ekki stofnað í hættu þrátt fyrir þessar upplýsingar sem lögreglan hefur.

Ein ástæða þess að lögreglan getur ekki, eða hefur ekki möguleika á að tjá sig um einstaka þætti rannsóknarinnar, er vegna þeirrar þekkingar og upplýsinga lögreglu um að skipulagðir brotahópar beita jafnvel þeirri aðferð að láta aðra taka á sig verknað sem viðkomandi framkvæmdi ekki. Hefur það því verið mjög mikilvægt fyrir lögreglu að vera ekki að greina frá slíkum atriðum er snerta rannsóknina beint líkt og hefur verið gert í þessu máli. Skýrir það kannski skort á upplýsingum að mati einhverra. Það er skylda lögreglu að sýna fram á hvað átti sér stað og þó aðili vilji koma með falskar játningar verður framburður t.d. að styðjast við gögn lögreglu.

Þegar mest var tóku beint þátt í rannsókninni ríflega 30 lögreglumenn og um 10 manns í úrvinnslu gagna og vettvangsrannsóknum. Þá er ekki meðtalinn sá fjöldi lögreglumanna sem tók þátt í öðrum aðgerðum, svo sem leitum, vettvangsrannsóknum og eru einnig í sérstöku viðbragði vegna þessa máls.

Þessir brotahópar virðast nota ofbeldi í auknum mæli og er það einn liður í brotastarfsemi þeirra, ásamt því sem þessir hópar sem lögreglan hefur verið að fást við, almennt, reyna að koma illa fengnu fé í löglegan rekstur og stunda fíkniefnaviðskipti í miklu mæli. Í því sambandi vísast til síðustu skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Ég vil koma því sérstaklega á framfæri að miðlæg rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur lyft grettistaki í rannsóknum, kortlagningu og þjálfun starfsmanna vegna rannsókna á skipulagðri brotastarfsemi á síðustu misserum og hefur sú þekking reynst vel í þessu máli til að mynda. “