2 September 2011 12:00

Mannlífið í borginni er fjölbreytt, rétt eins og verkefni lögreglu. Í gærmorgun var hún kölluð til þegar drukkinn karl á fertugsaldri hugðist taka sér far með strætó. Slíkt er ekki alltaf lögreglumál en í þessu tilviki framvísaði maðurinn farmiða sem var ætlaður börnum. Hann neitaði þráfaldlega að greiða gjald í samræmi við aldur og hélt áfram að láta barnalega. Svo fór að honum var vísað út úr strætisvagninum. Í hádeginu óskaði opinber stofnun eftir lögregluaðstoð vegna viðskotaills viðskiptavinar. Sá var óánægður með þjónustuna og skeytti skapi sínu á rúðu í húsinu. Maðurinn róaðist þegar lögreglan kom á vettvang og baðst afsökunar á framkomu sinni. Um svipað leyti kom ölvaður karl á fimmtugsaldri á lögreglustöðina við Hverfisgötu en viðkomandi rataði ekki heim til sín. Með góðra manna hjálp tókst að finna heimilisfang mannsins sem komst loksins heim til sín. Og í gærkvöld varð annar karl á fimmtugsaldri á vegi lögreglunnar. Sá átti líka erfitt með að rata heim og ekki var ölvunarástand hans til að bæta úr skák. Maðurinn hafði jafnframt verið til vandræða og valdið ónæði með að því hringja á dyrabjöllur í tíma og ótíma. Maðurinn var mjög ógnandi í garð lögreglumanna og fór svo að hann var færður í fangageymslu en við frekari eftirgrennslan kom ennfremur í ljós að hann var eftirlýstur vegna annarra mála.