14 Janúar 2009 12:00
Ekki eru allir jafn duglegir að koma jólatrjám í hendur sorphirðumanna en víða á höfuðborgarsvæðinu hefur verið hægt að setja trén út við lóðarmörk. Þangað eru þau sótt af starfsmönnum sveitarfélaganna og mælist þjónustuna vel fyrir. Íbúi í ónefndu fjölbýlishúsi í borginni hefur trúlega verið búinn að gleyma þessu því hann henti sínu jólatré beint niður af svölunum. Svo óheppilega vildi til að það lenti á bíl sem var lagt í bílastæði við húsið. Ekki er að fullu ljóst hvort íbúinn hafi ætlað að kasta jólatrénu að lóðarmörkunum eða beinlínis að valda skemmdum á bílnum. Hinu síðarnefnda er haldið fram af eiganda bílsins en sá hefur átt í deilum við þann sem kastaði jólatrénu. Tjónið á bílnum liggur ekki fyrir en þrætuepli mannanna er tiltekið bílastæði við áðurnefnt hús.
Þess má geta hirðingu jólatrjáa í Reykjavík lýkur í dag. Eftir það þurfa borgarbúar sjálfir að koma þeim á næstu endurvinnslustöð Sorpu.