31 Október 2012 12:00

Til handalögmála kom á milli tveggja ökumanna í Reykjavík í gær. Málsatvik voru á þá leið að annar taldi hinn hafa ekið gróflega í veg fyrir sig svo að lá við árekstri. Sá sem á sér taldi brotið ýtti þá á flautuna en uppskar í framhaldinu fingurinn frá hinum. Sá síðarnefndi ók hægt áfram en stöðvaði síðan bílinn. Sá sem á eftir kom átti því ekki um annað að velja en gera slíkt hið sama. Þegar hér var komið sögu var báðum mönnunum orðið heitt í hamsi þegar þeir yfirgáfu bílana til að ræða málið. Ekki var það nú gert á neinum skynsamlegum nótum því svo fór að mennirnir slógust út af áðurnefndu atviki. Annar var aumur eftir og sagðist vera með nokkrar rispur eftir áflogin en viðkomandi hugðist leggja fram kæru. Hinn viðurkenndi sinn hlut í málinu, en sagði jafnframt að það væri hinum alveg jafnmikið að kenna.