3 Febrúar 2014 12:00
Karl á fertugsaldri var stöðvaður við akstur í Hafnarfirði aðfaranótt sunnudags, en maðurinn var í annarlegu ástandi og hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Viðkomandi, sem hefur áður verið staðinn að því að aka sviptur og undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna, var handtekinn og færður á lögreglustöð. Í ljósi fyrri brota mannsins í umferðinni var bíllinn hans haldlagður, en um ákvæði þess efnis er fjallað í 107 gr. umferðarlaga.
Alls voru fjórtán ökumenn teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Átta þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík, fjórir í Hafnarfirði og einn í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Tveir voru teknir á föstudagskvöld, fjórir á laugardag, sjö á sunnudag og einn aðfaranótt mánudags. Þetta voru allt karlar, en þeir eru á aldrinum 17-59 ára og höfðu fjórir þeirra þegar verið sviptir ökuleyfi.