3 Október 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík stöðvaði för tæplega tvítugs ökumanns undir miðnætti í gær en sá hefur aldrei öðlast ökuréttindi. Á bíl hans vantaði skrásetningarnúmer að framan og við frekari eftirgrennslan kom í ljós að bíllinn var jafnframt ótryggður. Ökumaðurinn, sem gat ekki framvísað neinum skilríkjum, reyndi líka að villa um fyrir lögreglunni með því að gefa upp kennitölu annars manns. Slíkt er fátítt en þó ekki einsdæmi. Fyrr á árinu var ákært í máli þar sem ökumaður reyndi að koma sér undan sök með því að gefa upp ranga kennitölu. Sá sem fyrir því varð leitaði réttar síns enda er það refsiverð háttsemi að bera fólk röngum sakargiftum. Þetta ættu allir að hafa í huga.

Annars gekk umferðin þokkalega í gær þótt nokkuð væri um árekstra. Því miður er mikið um svokallaðar afstungur þar sem tjónvaldar hverfa strax af vettvangi. Sex slík tilfelli voru tilkynnt til lögreglunnar í gær en í þeim öllum var ekið á kyrrstæða bíla. Vitni var að einni ákeyrslunni en ekki hinum og því sitja eigendur þeirra fimm bíla líklega uppi með tjónið.