26 Apríl 2012 12:00

Nánast daglega berast lögreglu tilkynningar um hávaða og er þá oftast verið að kvarta undan hávaða í heimahúsum. Ein slík barst á níunda tímanum í gærkvöld og fylgdi sögunni að mikil öskur og læti væru í tiltekinni íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan hélt þegar á staðinn og bankaði upp á. Húsbóndinn kom til dyra og viðurkenndi strax að hann ætti sök á þessum látum. Þvertók hins vegar fyrir að hann væri að rífast við konuna eða börnin og þetta ætti sér eðlilegar skýringar. Þær voru á þann veginn að maðurinn var að horfa á undanúrslitaleik í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu og var viðureignin æsispennandi enda komin framlenging og kappið hefði borið hann ofurliði. Þetta var tekið gott og gilt en maðurinn engu að síður beðinn um að reyna að róa sig og taka þar með tillit til nágrannanna í blokkinni. Engar frekari kvartanir bárust vegna mannsins og því líklegt að honum hafi tekst að róa taugarnar. Leikurinn umræddi var á milli Real Madrid og Bayern Munchen en ekki er vitað hvort maðurinn studdi Madrídinga eða Bæjara en þeir síðarnefndu höfðu víst betur í vítaspyrnukeppni. Þess má geta að lögreglan hefur alloft áður verið kölluð til þegar æsispennandi kappleikir eru í sjónvarpinu og íþróttaáhugamenn heima í stofu gjörsamlega tapa sér!