6 Janúar 2012 12:00

Eins og fram hefur komið þurfti að loka bæði Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi um tíma í nótt. Veður fór að versna um miðnætti og víða á höfuðborgarsvæðinu var mjög þungfært, ekki síst í efri byggðum. Þá var ástandið utan borgarmarkanna ennþá verra. Vegna þessa lentu margir ökumenn í vandræðum og bílar festust víðsvegar í umdæminu.

Auk lögreglumanna voru fjölmargir björgunarsveitarmenn að störfum í nótt við að aðstoða ökumenn við að komast leiðar sinnar. Athygli vakti að sumir ökumenn voru mjög óþolinmóðir og hringdu ítrekað eftir hjálp þrátt fyrir að fyrirsjáanleg væri einhver bið eftir aðstoð, enda ógjörningur að sinna öllum beiðnum samtímis. Ennfremur voru ekki allir ökumenn sáttir þegar gripið var til þess tímabundna ráðs í nótt að loka fyrir umferð um Suðurlandsveg og Vesturlandsveg af öryggisástæðum.

Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að aka varlega en minnir líka á miklvægi þess að þeir sýni bæði þolinmæði og tillitssemi. Jafnframt er nauðsynlegt að ökumenn kynni sér upplýsingar um færð á vegum og fylgist með veðurspám þegar veður eru válynd.