8 Desember 2015 09:45
Lögreglan og aðrir björgunaraðilar höfðu í nógu að snúast í óveðrinu sem gekk yfir landið í gærkvöld og nótt, en yfir tvö hundruð björgunarsveitarmenn voru að störfum á höfuðborgarsvæðinu. Um klukkan tvö í nótt höfðu borist um 200 útköll, en þá hafði veðrið að mestu gengið niður og búið var að fækka í útkallsliðinu í umdæminu. Á meðal þess sem tilkynnt var um voru hurðir og gluggar sem fuku upp, sem og klæðningar og þakkantar sem losnuðu. Viðbúið er að eitthvað sé um fok- og vatnstjón og þá skemmdust enn fremur í veðurofsanum bátar í Reykjavíkurhöfn. Ekki var annað að sjá en fólk virti fyrirmæli og héldi sig heima og er það vel. Á þessu voru einstaka undantekningar en á fjórða tímanum í nótt var manni komið til bjargar á Rjúpnahæð í Kópavogi, en viðkomandi var orðinn ansi kaldur og hrakinn. Maðurinn var sóttur og borinn inn í lögreglubíl og í framhaldinu komið undir læknishendur.