30 September 2019 14:44

Rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á bruna í íbúð fjölbýlishúss í Jórufelli í Reykjavík aðfaranótt sunnudags er lokið, en hún leiddi í ljós að eldurinn kviknaði í svefnherbergi þar sem farið var óvarlega með eld. Tveir unglingspiltar voru heima við þegar þetta gerðist, en þeir náðu að komast út úr íbúðinni. Öðrum íbúum í stigaganginum var gert að yfirgefa íbúðir sínar á meðan slökkviliðið réð niðurlögum eldsins. Íbúðin, þar sem eldurinn kom upp, er töluvert skemmd. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið.