28 Nóvember 2006 12:00
Umferðin í Reykjavík var með bærilegasta móti í gær en þrettán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar. Eitt þeirra var afar óvenjulegt og flokkast frekar sem eignaspjöll. Talið er nær fullvíst að ökumaður í umræddu tilviki hafa ekið bíl sínum ítrekað og vísvitandi á annan bíl sem var mannlaus og kyrrstæður á bílastæði. Af þessu hlutust nokkrar skemmdir en eigendur áðurnefndra bíla þekkjast og munu hafa átt í deilum.
Tíu ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og þrír voru teknir fyrir ölvunarakstur. Nokkrir voru teknir fyrir hraðakstur en í þeim hópi var karlmaður á þrítugsaldri sem var stöðvaður á Breiðholtsbraut. Þar er 60 km hámarkshraði en bíll mannsins mældist á 120 km/klst. Sami maður var stöðvaður fyrir hraðakstur í síðasta mánuði en þá ók hann líka langt yfir leyfilegum hámarkshraða.