12 Apríl 2019 16:52

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er sífellt að leita leiða til að bæta þjónustuna og efla tengslin við almenning, ekki síst unga fólkið. Þar leika samfélagsmiðlar stórt hlutverk og það hefur embættið nýtt sér óspart, en nýjasta viðbótin í þeim efnum er Instagramsíðan Samfélagslöggur. Henni stýra lögreglumennirnir Birgir Örn Guðjónsson, Hreinn Júlíus Ingvarsson og Unnar Þór Bjarnason, en vilji þeirra er að færa lögregluna nær samfélaginu og styrkja tengsl hennar við ungt fólk sérstaklega. Félagarnir búa allir yfir mikilli reynslu þegar lögreglustarfið er annars vegar, en Hreinn og Unnar starfa á lögreglustöðinni í Kópavogi. Birgir starfaði þar líka, en hann vinnur nú að samstarfs- og þróunarverkefni lögreglunnar og Hafnarfjarðarbæjar, líkt og við sögðum frá á þessum vettvangi í síðasta mánuði. Samfélagslöggurnar eru hins vegar rétt að fara af stað og við vonum að þið takið þeim vel, en þremenningarnir eiga örugglega eftir að miðla til ykkar fullt af áhugaverðu efni sem verður á vegi þeirra enda er enginn dagur eins í lífi lögreglumannsins.