3 Febrúar 2009 12:00

Eitthvað var um pústra á höfuðborgarsvæðinu um helgina en sjö líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar. Fjórar voru tilkynntar aðfaranótt laugardags og þrjár aðfaranótt sunnudags en flestar líkamsárásanna, eða fimm, áttu sér stað á eða við skemmtistaði borgarinnar. Einhverja árásarþola þurfti að flytja á slysadeild til aðhlynningar en nokkrir árásarmannanna fengu að gista í fangageymslu lögreglunnar. Í þeim hópi var tæplega tvítugur piltur sem hafði lent í útistöðum við  fólk á skemmtistað og síðan í átökum við dyraverði á sama stað. Pilturinn mundi lítt eftir atburðum næturinnar þegar hann hafði sofið úr sér áfengisvímuna en tók samt fram að hann sæi eftir öllu saman og biði alla hlutaðeigendur afsökunar.