2 Desember 2008 12:00

Fyrir helgina hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afskipti af sautján ökumönnum sem virtu að vettugi umferðarmerki á gatnamótum Háaleitisbrautar og Bústaðavegar en hinir sömu eiga sekt yfir höfði sér. Um er að ræða brot á 5. grein umferðarlaga en í henni segir m.a. Vegfarandi skal fara eftir leiðbeiningum um umferð, sem gefnar eru með umferðarmerkjum, umferðarljósum eða hljóðmerkjum eða öðrum merkjum á eða við veg. Hinir brotlegu ökumenn, ellefu karlar og sex konur, tóku vinstri beygju á áðurnefndum gatnamótum þrátt fyrir að það væri bannað og að merkingar þar að lútandi ættu að vera öllum ljósar. Vöktun lögreglunnar á þessum stað er liður í eftirliti sem beinist ekki síst að vinnusvæðum í umdæminu. Við vinnusvæði hefur ennfremur borið nokkuð á hraðakstri og þurfa ökumenn að taka sig á í þeim efnum og sýna meiri tillitssemi.

Góðar merkingar duga ekki alltaf til. Frá gatnamótum Háaleitisbrautar og Bústaðavegar.