14 Mars 2007 12:00
Sjö ára piltur fingurbrotnaði þegar mark féll á hann í grunnskóla í austurborginni í gærmorgun. Pilturinn var við nafnakall í íþróttasal skólans þegar óhappið varð. Í framhaldinu hugðist skólastjórinn fjarlægja markið eða tryggja með öðrum hætti að slys sem þetta myndi ekki endurtaka sig.
Um svipað leyti slasaðist karlmaður á þrítugsaldri við vinnu sína í Kópavogi. Sá var að festa þakplötur á nýbyggingu við annan mann. Til öryggis voru þeir umlyktir sérstakri körfu sem krani heldur uppi en karfan er færð til eftir þörfum. Svo óheppilega vildi til að karfan skekktist til en við það fékk annar mannanna skurð á höfuðið en hinn slapp ómeiddur. Þykir mildi að ekki fór verr en mennirnir voru í töluverðri hættu. Óhappið tók mjög á kranastjórann sem bar ábyrgð á því að færa körfuna til en sá fékk áfallahjálp.
Nokkru síðar var árs gamalt barn flutt á slysadeild en það datt úr rúmi. Meiðsli barnsins voru ekki talin alvarleg. Síðdegis féll karlmaður á fimmtugsaldri illa í miðborginni og fékk skurð á höfuðið. Undir kvöldmat datt stúlka af hestbaki í Hafnarfirði en ekki er vitað um meiðsli hennar. Þá slasaðist iðnaðarmaður við vinnu sínu í miðborginni í gærkvöld. Hann fékk höfuðáverka og var fluttur á slysadeild.