11 Júní 2019 11:38
Búast má við um 10 þúsund áhorfendum á leik Íslands og Tyrklands á Laugardalsvellinum í kvöld kl. 18.45, og eru vallargestir hvattir til að mæta tímanlega. Þeir knattspyrnuáhugamenn, sem ekki ætla að nota strætó til að komast á völlinn, eru minntir á að leggja löglega, en sl. laugardag, þegar leikið var gegn Albaníu, fengu átján ökumenn sekt fyrir stöðubrot. Það þykir ekkert sérstaklega mikið þegar um svona viðburð er að ræða og almennt þá voru lagningar ökutækja til fyrirmyndar og vonandi verður það einnig raunin í Laugardalnum í kvöld. Á meðal þeirra sem fengu sekt á laugardaginn voru ökumenn sem lögðu bílum sínum við biðstöð hópbifreiða, en þarna má eigi stöðva eða leggja ökutæki í minna en 15 metra fjarlægð frá merki fyrir biðstöð hópbifreiða (sbr. 28. gr. umferðarlaga).