20 Júlí 2012 12:00

Þjófur var á ferðinni í miðborginni í gær og stal bláum sundpoka (Speedo) frá 10 ára dreng, sem var að leika sér við jafnaldra á grasflötinni við MR í Lækjargötu um fimmleytið síðdegis í gær. Í sundpokanum voru veruleg verðmæti, m.a. tölvuleikur, Nokia-sími, húslyklar, veski, blá flíspeysa og fjólublá húfa. Drengnum var  verulega brugðið þegar hann uppgötvaði að sundpokinn var horfinn, en pokann hafði hann lagt frá sér í stutta stund og bara rétt aðeins litið af honum. Því miður er þetta atvik ekki einsdæmi og minnir á nauðsyn þess að passa vel upp á hlutina okkar. Börn eru ekki síst berskjölduð þegar óprúttnir aðilar eru á ferðinni enda eiga þau það til að gleyma sér í leikjum, líkt og gerðist í þessu tilfelli í gær.

Það var því afar sorgmæddur drengur sem hélt heimleiðis eftir ömurlega lífsreynslu í miðborginni í gær, en lögreglan biður þá sem kunna að geta varpað ljósi á málið að hafa samband í síma 444-1000 eða senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is