16 Júlí 2018 18:20

Lögreglunni hefur borist fjöldi tilkynninga um svikapósta sem hafa verið sendir til fólks undanfarið. Í póstunum er sagt að móttakandi tölvupóstsins hafi verið á einhverjum klámsíðum og að sendandi póstsins hafi sýkt tölvuna af spilliforriti (vírus) og þannig hafi vefmyndavélin verið gerð virk og myndband tekið af viðkomandi. Greiða þarf upphæð til að forðast að þetta myndskeið verði sent á alla á tengiliðaskrá móttakandans. Til að koma í veg fyrir það þurfi að greiða vissa upphæð í rafmynt (bitcoin). Þá hefur líka verið að bera á því að lykilorð móttakanda sé vitað og það jafnvel gefið upp.

Lögreglan vill benda á að ekki er mælt með að þessi upphæð sé greidd. Þetta eru svikapóstar sem sendir eru á tölvupóstföng sem ganga kaupum og sölum á vefnum og þegar lykilorð móttakandans er einnig gefið upp þá gefur það til kynna að þau lykilorð hafi komið upp í einhverjum lekum.

Hinsvegar virðast þessi skeyti vera fjölpóstar. Ekkert gefur til kynna að þeir sem senda póstinn hafi einhver myndskeið eða hafi í raun gert neitt af því sem þeir hóta. Þeir hafa í sumum tilvikum komist yfir einhverja skrá með lykilorðum og nota það til að ljá hótun sinni meira vægi, en það virðist vera allt sem þeir hafa. Þetta form er kallað vefveiðar og er vel þekkt, fjölpóstur er sendur á marga og reynt að skapa hræðslu og stress til að fá brotaþola til að senda peninga.

Lögreglan mælir með að fólk hylji vefmyndavél sína þegar hún er ekki í notkun og einnig að kanna með hvort tölvupóstföng og notendanöfn þeirra hafi verið í einhverjum lekum. Það er hægt að gera á vefsíðunni

https://haveibeenpwned.com

Ef upp kemur á þessari síðu að reikningar og lykilorð hafi lekið þarf að breyta lykilorðunum. Lögreglan mælir með að fólk fái sér einhverja lykilorðabanka (forrit sem halda utan um lykilorð) og er auðvelt að finna slíkt með leit á netinu. Þessi forrit búa jafnvel til lykilorð fyrir notendur svo þeir þurfi ekki að nota alltaf sömu lykilorðin. Einnig er gott að vera með tveggja þátta auðkenningu (two way authentication) til að gera brotamönnum erfiðara að nota lykilorð sem þeir komast yfir.